Ávarp formanns

Nú þegar við gerum upp golfárið 2024 viljum við í stjórn Golfklúbbsins Keilis senda ykkur okkar bestu kveðjur og þakka fyrir ánægjulegt ár. Starfið innan klúbbsins hefur verið skemmtilegt og árangursríkt, og er ljóst að samhugur og metnaður félagsmanna heldur áfram að styrkja okkur sem einn af fremstu golfklúbbum landsins.

Tímabilið 2024 hófst á því að vallarstarfsmenn unnu kraftaverk með að klára nýju 16. brautina á aðeins nokkrum vikum og segja má að þarna hafi fæðst ein glæsilegasta golfhola landsins. Reyndar einnig ein af þeim erfiðustu á landinu.

Starfsárið

Myndir frá yfirstandandi starfsári Keilis.

Framkvæmdum á Hvaleyri lokið

Vorið 2024 markaði kaflaskil í nýframkvæmdum þar sem opnað var fyrir leik á tveimur nýjum brautum og endurskipulagningu Hvaleyrinnar því lokið. Ferlið hófst árið 2013 þegar leitað var til golfvallaarkítektsins Tom Mackenzie og hann fenginn til að endurskipuleggja Hvaleyrina. Til að geta klárað verkið þurfti þó mikið átak í vor þar sem ólíkt fyrri framkvæmdum höfðu starfsmenn einungis veturinn og vorið til að klára nýju 16. brautina.

Árangur í sumar

Árangur okkar fólks í íþróttastarfinu var góður. Náðum við samtals 45 sætum á verðlaunapalli þegar horft er í öll mót hér á landi og erlendis.

Reksturinn áfram sterkur

Rekstur Golfklúbbsins Keilis var á góðu róli á síðasta rekstrarári afkoman svipuð einsog áætlanir gerður ráð fyrir. Þó var mikil aukning í tekjum milli ára vegna lengra rekstrartímabils veitingasölunnar og bættrar afkomu æfingasvæðisins.

Tekjur á árinu 2024 voru 474,8 mkr. samanborið við 408,9 mkr. árinu áður. Gjöld voru 445,9 mkr. samanborið við 382,6 mkr. á árinu 2023. Tekjur jukust þannig um 16% á móti kostnaði sem jókst um 17%. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 28,9 mkr. á árinu 2024 samanborið við 26,3 mkr. árinu áður.