Golfsumarið 2024
– Skýrsla vallarstjóra
Golfsumarið á Keili byrjaði sem fyrr með fjölmennum hreinsunardegi sjálfboðaliða. Hreinsunardagurinn var haldinn þann 11. maí og völlurinn formlega opnaður þann 13. eða tveimur vikur fyrr en árið áður.
Veturinn var nokkuð hagstæður og vellirnir því í góðu standi strax frá opnun. Maímánuður var ágætur þar sem hitastig var í meðallagi en úrkoma þó töluvert mikil. Mikil ásókn var í vellina strax frá opnun og þá sérstaklega Hvaleyrarvöll, enda tvær nýjar golfholur kynntar til leiks strax við opnun.
Veðrið hélt áfram að stríða okkur í júní sem var bæði kaldur og blautur. Tiltölulega lítið var um mótahald og einbeitti starfsfólk sér að því að undirbúa vellina fyrir meistaramót og vernda viðkvæm svæði fyrir átroðningi.
Líkt og aðrir, bjuggust starfsmenn við góðu veðri í júlí. Eftir kalda og blauta mánuði á undan hlaut að vera komið að því að veðurguðirnir blessuðu okkur með alvöru sumarveðri. Sú varð þó ekki raunin.
Auk þess að hafa verið fremur kaldur, var júlímánuður einnig sá úrkomumesti í 40 ár. Fyrri part meistaramóts var þó boðið upp á frábært veður við góðar aðstæður, sem snérist þó á seinni hlutanum þar sem fella þurfti niður síðasta keppnisdag vegna veðurs.
Þrátt fyrir áframhaldandi vonbrigði með veður, tókst starfsmönnum að halda völlum í góðu standi og bjóða áfram upp á leik við hæstu gæði í ágúst.
Það var ljóst að sú mikla vinna við að ná völlunum til baka eftir miklar skemmdir árið áður, voru að skila sér áfram í ár. Vellirnir tóku vel við miklu álagi út allt tímabilið þrátt fyrir óhagstæð veðurskilyrði og mikla ásókn. Skemmtilegur Hvaleyrarbikar var svo haldinn í ágúst þar sem Hvaleyrarvöllur fékk m.a. glænýtt vallarmet af 63 teigum. Þó sumarið hafi aldrei almennilega komið, kom haustið svo sannarlega.
Kaldir haustmánuðir ollu því að tiltölulega lítið golf var spilað á völlunum okkar. Hvaleyrarvelli var svo formlega lokað þann 14. október sem er mun fyrr en síðustu ár. Nóvembermánuður var hinsvegar óvenju góður og tóku starfsmenn því fagnandi og nýttu sumarveðrið vel til þess að klára þau fjölmörgu verkefni sem klára þurfti fyrir veturinn.
Starfsmenn
Á fastráðnum starfsmönnum urðu þær breytingar að Sigurgeir Sigurðsson (Giggi) lét af störfum sem vélvirki klúbbsins. Auk fastráðinna manna munu þeir Bjarki Freyr og Helgi Snær starfa á vellinum í vetur. Bæði Bjarki og Helgi eru miklir reynsluboltar sem hafa starfað fjölmörg ár hjá klúbbnum og mikil gæfa að geta haldið þeim allt árið, þar sem á nægu verður að taka hjá starfsmönnum næstu misserin.
Úthlutun starfsmanna frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar var í takti við síðustu ár. Sem fyrr skiptir þessi úthlutun gríðarlega miklu máli fyrir rekstur vallanna okkar sem annars ættu erfitt með að standa undir þeim kröfum sem á okkur eru settar.
Alls störfðu 25 manns á vellinum í sumar. Þar af voru fimm yngri drengir sem unnu upp sína takmörkuðu tíma hjá Vinnuskólanum. Ánægjulegt var að sjá áhuga þeirra á starfinu og verður mikill fengur fyrir okkur að geta boðið þeim fulla vinnu að ári, þegar þeir hafa náð aldri til.
Starfsmenn með tímabundna ráðingu árið 2024 voru:
Andri Freyr Baldursson
Arnar Bjarki Björgvinsson
Aron Knútur Haraldsson
Bjarki Freyr Ragnarsson
Einar Árnason
Gísli Rúnar Jóhannsson
Haukur Leifur Eiríksson
Heiðar Bjarki Davíðsson
Helgi Snær Björgvinsson
Helgi Valur Ingólfsson
Jason Sigþórsson
Jón Viktor Hauksson
Jón Örn Ingólfsson
Matthías Logi Baldursson
Kristján Hrafn Ágústsson
Kristófer Kári Þorsteinsson
Krummi Týr Gíslason
Sturla Haraldsson
Tristan Snær Daníelsson
Þorsteinn Ómar Ágústsson
Fastráðnir starfsmenn voru
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson
Haukur Jónsson
Rúnar Geir Gunnarsson
Ingibergur Alex Rúnarsson
Sigurgeir Sigurðsson
Vélakaup
Þó svo mikið hafi verið um kostnaðarsöm verkefni á árinu, þar sem helst ber að nefna nýja vélageymslu, þurfti þó að endurnýja nokkur tæki á vellinum. Á haustdögum voru keyptir 2 nýjir vinnubílar á völlinn. Báðir eru þeir 100% rafmagnsknúnir, með palli og vel útbúnir fyrir dagleg störf. Þónokkuð hefur verið um að vantað hafi bíla síðustu sumur og munu þessa kaup leysa þann vanda. Einnig gaf götunarvélin okkar upp öndina í haust, eftir langa og góða samveru. Götunarvélin, af stærri gerðinni, hefur mest verið notuð í útselda vinnu og þjónustu okkar við Hafnarfjarðarbæ þurfti því að vera endurnýjuð og fengum við nýja og afkastameiri vél í hendurnar í byrjun nóvember.
Almennt viðhald
Mikill léttir varð á meðal starfsmanna þegar ljóst var að vellirnir okkar höfðu komið töluvert óskaddaðir undan vetri. Vorið á undan hafði verið það versta í langan tíma og öll vinnan sem fór í að rækta aftur upp gras þarf vonandi ekki að verða leikin eftir aftur á næstu árum. Helstu skemmdir voru því frá sumrinu á undan og vel tókst að loka þeim sárum sem erfðust höfðu milli ára.
Auk daglegra verka snéri viðhald sumarsins, sérstaklega framan af, mikið að því að halda grasi á nýjum og viðkvæmum svæðum sem opnað var á strax í vor. Ágætlega gekk að dreifa álagi um þessi svæði en sums staðar reyndist það þó þrautinni þyngri. Teigar og braut á 16. holu héldu sér nokkuð vel en gönguleiðir að og frá 17. holu áttu erfitt uppdráttar. Það var þó fyrirséð að einhver svæði næðu sér illa, enda erfitt að opna fyrir golfleik á svæði sem eru nýtyrfð. Skaðinn er þó ekki mikill og munu starfsmenn leggja allt kapp í að loka verstu svæðunum strax næsta vor.
Áherslur í almennu viðhaldi voru þær sömu og síðustu ár, þar sem mikið er lagt upp úr ákvarðanatöku út frá mælanlegum gildum og áburði að mestu úðað, í smærri skömmtum og oftar. Við héldum einnig áfram að sanda valdar brautir í hrauninu reglulega sem hefur gefist vel, og t.a.m. brautir 2. og 9. farnar að sýna ummerki þess. Slíkum söndunum verður haldið áfram. Yfirsáningar fóru fram seinnpart sumars í ár, þá var sáð í allar flatir vallarins auk valdra teiga. Yfirsáningar síðasta árs hafa greinilega skilað góðum árangri og flatir með þéttasta móti í sumar. Allar flatir voru sandaðar þétt snemma í vor og fengu svo léttari söndun yfir tímabilið. Nú í haust voru flatir svo aftur sandaðar þétt og gataðar í framhaldinu. Auk úðana og valtana, er það mikilvægur partur í því að undirbúa flatirnar okkar fyrir veturinn.
Flatir voru slegnar 4x í viku og flatir valtaðar þá daga sem enginn sláttur var. Sláttuhæðir voru að mestu þær sömu og áður, en flatir þó slegnar neðar á tímabili til að halda hraða, vegna þéttleika þeirra. Gerð var tilraun með slátturóbota á brautum, þar sem slátturóbotar sáu að mestu um slátt á 9. braut Hvaleyrarvallar sem þó var slegin reglulega á hefðbundinni sláttuvél til að viðhalda strípum. Vel gekk með þessa tilraun og hlökkum við til að halda áfram að auka hagkvæmni og gæði með innleiðingu frekari tækninýjunga í okkar rekstri.
Sláttuhæðir og tíðni voru eftirfarandi
Flatir 4mm – 4x í viku
Svuntur 8mm – 3-4x í viku
Teigar 8mm – 3-4x í viku
Brautir 10mm – 3x í viku
Kargi 65mm – 1-2x í viku
Áburðarnotkun á flatir í ár var eftirfarandi
Köfnunarefni 92kg/ha – Fosfór 17kg/ha – Kalí 29 kg/ha
Sveinskotsvöllur
Síðustu ár hefur aukið álag og auknar kröfur um gæði á Sveinskotsvelli orðið til þess að sífellt meiri kraftur er settur í völlinn af hálfu starfsmanna. Gæðin hafa aukist ár frá ári og hafa starfsmenn unnið í smærri breytingum, en þó helst við umhirðu á vellinum. Nokkrir teigar hafa verið stækkaðir en ljóst er að stækka þarf fleiri teiga svo vel eigi að vera.
Í sumar voru þeir fáu þurrkadagar vel nýttir við yfirsáningar á flötum og teigum sem án efa skila sér að fullu á næsta tímabili. Ingibergur sá um umhirðu og sérhæfðari vinnu við völlinn og var það um 50% stöðugildi. Ljóst er að áfram verður mikið álag á völlinn og til að bæta gæðin enn frekar mun viðvera Ingibergs verða enn meiri á Sveinskotsvelli á næsta ári. Sveinskotsvöllur verður sem fyrr opinn í vetur á vetrarteigum, en líkt og síðasta vor munum við loka honum þegar nær dregur sumri til að vernda flatirnar á viðkvæmasta tímanum.
Vélafloti
Litlar breytingar urðu á vélaflota klúbbsins í ár. Síðustu ár hefur okkur tekist að endurnýja um helming sláttuvélaflotans en við erum þó enn að notast við gamlar og lúnar vélar á ýmsum svæðum. Þær vélar sem tímabært er að endurnýja eru t.a.m vélar sem sjá um slátt á svuntum, teigum, flötum og fótboltavöllum og eru elstu vélar orðnar yfir 20 ára gamlar. Þrátt fyrir mikla framþróun á sjálfvirkum sláttuvélum er það enn ekki kostur á fyrrnefnd svæði, heldur frekar á brautum, karga og opnari svæðum.
Í dag er vélaflotinn í raun tvískiptur. Um helmingur tækjanna er mjög nýlegur en hinn helmingurinn gamall og lúinn. Rætt hefur verið um að endurnýja eldri hlutann að fullu og fjármagna kaupin með lántöku. Erfitt er að halda flotanum í lagi með kaupum á einni vél á ári eða öðru hverju og erum við þá sífellt að elta skottið á okkur í þeim efnum. Þess vegna tókum við umræðunni um fjárfestingu í „vélapakka“ fagnandi og vonum svo sannarlega að henni verði haldið á lofti.
Útseld þjónusta
Helstu tíðindi af útseldri þjónustu í ár voru þau að skrifað var undir nýjan þjónustusaming við Hafnarfjarðarbæ, þar sem bætt hefur m.a verið við nýju æfingasvæði FH. Nýja æfingasvæðið er Hybrid gras og tæplega 1.5 hektari af stærð. Umhirða Hybrid grass er mjög sérhæfð og tíðni og fjöldi verka fleiri en á hefðbundnum grasvöllum. Þessi aukning er því teljandi fyrir okkur og bætist ofan á okkar útseldu þjónustu sem var umtalsverð fyrir. Vegna þessa mun útseld þjónusta klúbbsins verða hnitmiðaðari næstu ár og starfsmenn ráðnir og þjálfaðir sérstaklega fyrir þá vinnu. Þannig verður minna rask á daglegum rekstri klúbbsins vegna þjónustunnar.
Auk þjónustu okkar við Hafnarfjarðarbæ þjónustaði klúbburinn sem fyrr grasvelli ÍTR með söndunum í vor og götun í haust. Einnig sinntum við stöku spreyjunum fyrir Laugardalsvöll. Þrátt fyrir að stærri klúbbar séu í meira mæli farnir að brýna eigin sláttukefli er brýningarþjónusta okkar enn vinsæl. Sláttukeflum fækkaði þó úr 328 í 184 s.l. vetur en búast má við því að sá fjöldi aukist aftur í vetur þar sem margir klúbbar senda kefli til brýningar annað hvert ár.
Nýframkvæmdir
Vorið 2024 markaði kaflaskil í nýframkvæmdum þar sem opnað var fyrir leik á tveimur nýjum brautum og endurskipulagningu Hvaleyrinnar því lokið. Ferlið hófst árið 2013 þegar leitað var til golfvallaarkítektsins Tom Mackenzie og hann fenginn til að endurskipuleggja Hvaleyrina. Til að geta klárað verkið þurfti þó mikið átak í vor þar sem ólíkt fyrri framkvæmdum höfðu starfsmenn einungis veturinn og vorið til að klára nýju 16. brautina.
Vel gekk þó við framkvæmdir og voru teigar og gönguleiðir tyrfðar einungis klukkutímum fyrir opnun vallarins. Glompur á nýju 16. braut voru einnig hlaðnar í vor og gerð var tilraun með nýja tækni í glompugleðslu þar sem endurunnið gervigras er notað í stað hefðbundinna grasþakna.
Mikil ánægja var með nýju glompurnar, bæði meðal kylfinga og starfsmanna og var því ákveðið að endurbyggja fleiri glompur nú í haust með sömu aðferð. Eftir að hafa metið glompurnar á vellinum var ákveðið að endurbyggja skyldi fjórar glompur strax í haust þar sem ástand þeirra var orðið það slæmt að óráðlegt væri að bjóða kylfingum upp á þær annað tímabil.
Ekki síðri áfanga var náð þegar tekin var í gagnið ný vélaskemma. Unnið hafði verið að skemmunni síðan sumarið 2023 og hún svo komin í gagnið nú í vor. Byggingin er gríðarlega stórt skref fram á við fyrir klúbbinn þar sem vélakostur og annað umfang hefur stækkað ört síðustu ár og valdið því að mjög illa fór um menn og tæki.
Með tilkomu nýju vélaskemmunnar losnaði um mikið pláss í þeirri gömlu. Verkefni vetrarins er að vinna að endurskipulagningu á henni. Skemmunni verður skipt í tvennt þar sem öðrum helmingi hennar verður breytt í verkstæði og hinum í starfsmannaaðstöðu. Með þessum breytingum verður hægt að bjóða starfsfólki upp á bestu mögulegu aðstöðu og styrkja stöðu okkar í baráttunni um gott starfsfólk enn frekar.
Lokaorð
Það má með sanni segja að árið 2024 hafi verið tímamótaár hjá klúbbnum. Síðastliðin 11 ár hafa starfsmenn unnið að breytingum á Hvaleyrinni sem kláruðust nú í vor. Það er skýtið að hugsa til þess að Hvaleyrin sé komin í sitt endanlega skipulag, og framkvæmdum, af þeirri stærðargráðu sem við höfum vanist s.l. ár á Hvaleyrinni sé lokið. Starfsmenn eru afar stoltir af breytingunum og þeirri vinnu sem tekist hefur að klára samhliða því að hirða um golfvellina okkar. Á þessum 11 árum hafa margir komið að verkefninu og ásamt því að hafa lært hvert af öðru, hefur verkefnið skapað nýja og víðtæka sérþekkingu sem nýtist ekki einungis hjá okkur, heldur hefur hún, og mun halda áfram að nýtast og hafa jákvæð áhrif á golfíþróttina um land allt.
Þrátt fyrir kaflaskil, heldur bókin áfram og getur Keilisfólk látið sig hlakka til áframhaldandi uppbyggingar og bætinga. Mörg spennandi verkefni liggja fyrir á komandi árum. Starfsmenn hlakka sérstaklega til næsta sumars þegar Íslandsmótið í golfi verður haldið á Hvaleyrarvelli. Við erum bjartsýn á að næsta ár verði skemmtilegt og sólríkt, og að við getum áfram boðið kylfingum upp á golfvelli í hæsta gæðaflokki.
F.h. vallastarfsmanna
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson