Ávarp formanns

Golfárið 2024

Nú þegar við gerum upp golfárið 2024 viljum við í stjórn Golfklúbbsins Keilis senda ykkur okkar bestu kveðjur og þakka fyrir ánægjulegt ár. Starfið innan klúbbsins hefur verið skemmtilegt og árangursríkt, og er ljóst að samhugur og metnaður félagsmanna heldur áfram að styrkja okkur sem einn af fremstu golfklúbbum landsins.

Tímabilið 2024 hófst á því að vallarstarfsmenn unnu kraftaverk með að klára nýju 16. brautina á aðeins nokkrum vikum og segja má að þarna hafi fæðst ein glæsilegasta golfhola landsins. Reyndar einnig ein af þeim erfiðustu á landinu.

Með þessari opnun, sem í ár lenti á 13. maí, lauk í raun 7 ára tímabili þar sem Hvaleyrarhluta vallarins hefur verið gjörbreytt. Aðeins ein hola stendur óbreytt, núverandi 15. hola. Markmiðið við upphaf þessara breytinga var að bæta leikupplifun og auka áskoranir fyrir kylfinga á öllum getustigum. Viðbrögð kylfinga hafa almennt verið mjög góð ef ekki frábær en einhverjir vilja þó meina að uppröðun á holunum mætti vera með öðrum hætti. Samkvæmt skoðanakönnuninni sem nýlega var gerð er núna í fyrsta skipti fleiri sem setja Hvaleyrina sem skemmtilegri hluta vallarins.

Golfárið fer þó seint í sögubækurnar sem annað en erfitt golfsumar því veðurguðirnir voru ekki hliðhollir kylfingum. Hvaleyrarvöllur var opinn í 154 daga í ár og á þessum dögum voru leiknir 34.304 hringir, sem er nánast sami fjöldi og árinu áður (34.194). Það er ekkert launungamál að við spilum mikið golf hér í Keili. Meðaltal spilaðra hringa per félagsmann voru rúmlega 17 hringir í sumar og samtals voru 745 félagsmenn sem léku 15 hringi eða fleiri á Hvaleyrarvelli.

Á Sveinskotsvelli heldur aðsóknin áfram að aukast. Í ár voru leiknir 12.279 hringir miðað við 11.131 hringi frá árinu áður.

Góðir félagar kveðja

Þetta árið minnumst við fyrsta formanns Keilis. Jónas Aðalsteinsson var formaður Keilis árin 1967-1968 og vann ötullega að því að tryggja okkur landsvæðið á Hvaleyrinni. Hann ásamt nokkrum öðrum forsprökkum getum við þakkað fyrir þeirra hugsjón og áræðni. Baldvin Jóhannsson, starfsmaður klúbbsins og mikill velgjörðarmaður alla sína golfævi. Framlag þeirra hefur í gegnum árin haft mikið að segja fyrir stöðu okkar í dag og erum við öll ævinlega þakklát þessum góðu félögum.

Um leið og við kveðjum góða félaga með einlægri þökk vottum við aðstandendum okkar dýpstu samúð og þakkir fyrir tímann þeirra til handa Keili.

Aðgengi að vellinum.

Eins og síðustu ár hefur aðgengi að Hvaleyrarvelli verið í brennidepli. Völlurinn er takmörkuð auðlind okkar allra og því eðlilegt að mörg hafi skoðun á.

Mikið hefur verið rætt rástímafyrirkomulagið eins og það hefur verið undanfarin ár. Stjórn ákvað í byrjun ágúst að fara af stað með tilraunaverkefni og prófa nýtt fyrirkomulag. Við þurftum hugrekki til að breyta, en markmiðið var að skapa þekkingu og reynslu meðal félagsmanna til að skapa umræðugrunn fyrir framhald, því óánægja hafði aukist meðal félaga undanfarin ár með aðgengi að vellinum.

Það er ánægjulegt að sjá að 77% félaga í nýlegri skoðanakönnun hafa verið ánægðir með tilraunina sem gefur okkur góðan grunn til að skoða næstu skref.

Fyrirkomulagið sem lagt var upp með var að opna á bókanir það sem eftir lifði tímabilinu, en halda þó í sama hámarksfjölda virkra bókana sem hver og einn gat haft á hverjum tíma.

Miklar umræður sköpuðust um þessar breytingar og fékk starfsfólk og stjórn mikið af málefnalegum athugasemdum varðandi nýju tillöguna. Það var þó augljóst að kylfingar voru bæði smeykir en líka spenntir fyrir að prófa breytinguna og erum við í stjórn þakklát fyrir viðbrögðin.

Eftir sumarið var síðan farið að rýna í gögnin og skoða hvaða áhrif þessar breytingar höfðu á bókanir og bókunarmynstur félaga.

Til að skoða áhrifin var rýnt í nýtingarhlufall, sem er sú mælieining gefur okkur vísbendingu um hversu mikil ásókn er raunverulega að vellinum. Fyrir breytingar á rástímakerfinu í ágúst var nýtingarhlutfallið 81% milli klukkan 09:00-17:00. Það þýðir að af öllum þeim rástímum sem voru í boði milli 09:00-17:00 voru 81% af þeim rástímum bókaðir. Eftir breytingar á rástímakerfinu lækkaði hlutfallið niður í 71% miðað við sömu 6 daga fram í tímann og í gamla kerfinu.

Annar mælikvarði sem var rýndur var fjöldi breytinga á rástímum. Fyrir breytinguna á rástímakerfinu voru að jafnaði 2.799 breytingar gerðar á rástímum per viku, en eftir að farið var í nýja kerfið voru gerðar 2.134 breytingar á rástímum per viku, eða tæplega 24% færri breytingar. 

Auðvitað er fleira sem spilar inn í þessar tölur eins og veður og annað en samt sem áður gefur þetta okkur góða mynd um að þrýstingurinn sem var á rástímabókunum fór niður eftir breytingarnar og mögulega var minna um að kylfingar bókuðu sér rástíma bara upp á von og óvon.

Veitingasala

Þetta var annað árið í röð sem golfklúbburinn sjálfur sá alfarið sjálfur um rekstur veitingasölu. Reksturinn skilaði jákvæðri afkomu og sé tekið mið af niðurstöðum könnunarinnar núna í haust getum við ekki annað en verið ánægð með árið þar sem allir mælikvarðar eru á uppleið.

Félagsmenn sem gestir eru ánægðir með veitingasöluna enda hefur stefnan verið að bjóða gestum upp á hóflegt verðlag á bæði mat og drykk. Hrefna Helgadóttir hefur borið ábyrgð á starfseminni og á þakkir fyrir þær umbætur sem við sjáum í öllum þáttum þjónustunnar. Vissulega hefur slakt golfsumar haft áhrif á rekstur veitingasölunnar, sem vafalaust hefði orðið enn betri í eðlilegra árferði.

Við erum að sjá mikið hagræði í að vera með reksturinn inni í Keili þar sem það hefur opnað á nýja samstarfsamninga og aukið þjónustuframboð okkar fyrir ýmsa atburði í okkar fallega skála, sérstaklega yfir vetrartímann.

Æfingasvæðið

Á síðasta ári var farið í miklar framkvæmdir í Hraunkoti. Sett var upp Trackman Range tækni í alla bása og má sanni segja að við það hafi orðið algjör umbreyting á nýtingu svæðisins. Við sjáum markverða breytingu í fjölda slegna bolta á æfingasvæðinu sem hefur næstum því tvöfaldast borið saman við sömu mánuði í fyrra.

Einnig er langt komin uppsetning á hiturum í alla bása á svæðinu. Sú framkvæmd er á lokametrunum og fara hitararnir að detta inn einn af öðrum núna fyrir jól. Það mun vera mikil breyting og vonandi enn meiri nýting á svæðinu yfir vetrarmánuðina. Einnig fóru í gang nýir golfhermar í Hraunkoti í febrúar síðastliðnum, skipt var út greiningartækjum, tölvum og vörpum þannig að golfherma aðstaðan er eins og best verður á kosið.

Hvaleyrarvöllur er nýlega kominn inn í hermana hjá okkur til reynslu (BETA testing), en mun einnig á næstu misserum vera að fullu aðgengilegur í öllum hermum Trackman fjölskyldunnar. Búið er að senda skýrslu um endurbætur og verða þær keyrða inn á næstunni.

Gamla skýlið fékk svo yfirhalningu sem verður lokið á næsta ári með gervigraslagningu á skýlinu sem mun vonandi auka notkun þess undir nýliða, styttra spil og fleiri æfinga.

Þjálfaramálin 

Í byrjun starfsársins var auglýst eftir nýjum afreksþjálfara til að starfa við hlið Karls Ómars, íþróttastjóra. Þó nokkrir hæfir einstaklingar sóttu um en á endanum var ákveðið að ráða Birgir Björn Magnússon til starfa. Hann hafði þá um nokkurra ára skeið dvalið í Bandaríkjunum við námi og þjálfun í háskólagolfi.  

Svo á haustdögum ákvað Karl Ómar að segja sig frá starfi íþróttastjóra og var auglýst eftir nýjum aðila í hans starf. Nýlega var svo gengið frá samningi við Birgi Björn um að hann tæki við keflinu af Karli Ómari sem íþróttastjóri. 

Við viljum þakka Karli Ómari Karlssyni kærlega fyrir gott starf undanfarin sjö ár en hann skilur eftir sig mjög efnilegan hóp kylfinga og við horfum fram á bjarta framtíð í afreksmálum félagsins.  

Nýr golfvöllur í landi Hafnarfjarða 

Þann 4. nóv. 2024, óskaði stjórn Golfklúbbsins Keilis formlega eftir samstarfi við Hafnarfjarðarbæ um uppbyggingu á nýjum 36 holu golfvelli í landi Hafnarfjarðar. Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt þann 14. nóv. 2024 „Bæjarráð tekur jákvætt í erindi Golfklúbbsins Keili og bæjarstjóra falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.“ 

Á sama tíma og við bjóðum krafta okkar og miklu þekkingu á öllum sviðum við þróun á nýjum golfvelli þá viljum við ítreka að við fögnum þátttöku nágranna okkar í Setbergsklúbbnum í verkefninu þar sem okkar markmið er að vinna að því með hagsmuni allra kylfinga í Hafnarfirði.  

Sjálfboðaliðar óskast.

Undir lok sumarsins var auglýst eftir sjálfboðaliðum til að koma að ýmsu starfi i okkar góða félagsskap. Í stjórn er mikill metnaður fyrir því að virkja betur félaga til góðra verka og trúum við því að það sé fullt af félögum sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum í starfi fyrir klúbbinn. Við auglýsum því eftir félögum til mögulegra starfa – Skráninga á sjálfboðalista

Ég þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu að starfi Keilis á einn eða annan hátt á árinu og hjálpuðu til við að gera starfsemi félagsins sem veglegasta en án þeirra væri ekki hægt að reka svona félagsskap. Sérstaklega vill ég nefna óeigingjarnt framlag Sveins Sigurbergssonar við almennt viðhald á húsnæði og grónum svæðum, Benedikt Jónasson sem hefur farið meðfram æfingasvæðinu nánast daglega og týnt kúlur úr köntum, Ólafur Davíð Jóhannesson við smíðavinnu í nýju vélaskemmunni og æfingaaðstöðu, Sigurjón Sigurðsson og Jónas Stefánsson við rafmagnsvinnu tengt nýjum græjum á æfingsvæðinu og í nýju vélaskemmunni. Kristján Henrýsson hefur svo farið fyrir lagnavinnu í gegnum okkar framkvæmdir. Svo má alls ekki gleyma Guðbjarti Þormóðssyni sem hefur lagt á sig ómælda vinnu í öllum þessum verkefnum og er ávallt boðinn og búinn til að aðstoða við allt það sem gert er á svæðinu okkar. Einnig eigum við miklar þakkir til fyrirtækja sem hafa lagt okkur lið með aðgengi að ómetanlegum tækjum og tólum sem hafa nýst í uppbyggingunni.

Einnig vill ég þakka öllum sjálfboðaliðum sem mættu á hreinsunardaginn sem er ómetanleg byrjun á hverju ári hjá okkur og svo krökkunum sem hafa grafið upp fjöldann allann af boltum á æfingasvæðinu okkar.

Guðmundur Örn Óskarsson 

Formaður