Mótahald og skemmtanir
Mótahald sumarsins er ávallt frekar hefðbundið ár frá ári en alls voru haldin 16 mót á Hvaleyrarvelli í ár.
Jónsmessan var haldin 22. júní. Mótið hefur alltaf verið eitt af skemmtilegustu mótum ársins þar sem megináherslan er lögð á að hafa gaman og styrkja vinabönd félagsmanna. Keppendur létu veður og vina ekki hafa áhrif á sig en alls tóku 88 manns þátt. Eftir golfið töfraði Hrefna fram grillveislu og Halli Melló steig á stokk og hélt fjörinu gangandi út kvöldið.
Meistaramót Keilis fór fram dagana 7-13 júlí. Alls tóku 370 manns þátt í 27 flokkum. Mótið fór vel af stað og veðrið var til friðs fyrri part móts. Seinni partur mótsins litaðist af miklum vind og erfiðum aðstæðum. Veðurspáin var ekki góð fyrir lokadaginn og á endanum var tekin sú ákvörðun að fella niður lokaumferðina.
Hvaleyrarbikarinn var haldinn dagana 9-11 ágúst. Var þetta í 9 skipti sem þetta mót er haldið. Mótið er partur af “stóru fjóru” mótunum á GSÍ mótaröðinni þar sem allir sterkustu kylfingar landsins mætast. Keilir hefur undanfarin ár lagt mikið kapp við að búa til eins flotta umgjörð og kostur er á.
Mótahaldi sumarsins var síðan slúttað með Bændaglímunni. Bændaglíman hefur fest sig í sessi hjá mörgum kylfingum sem síðasti hringur ársins á Hvaleyrarvelli. Mótið heppnaðist afar vel þar sem veðrið var frábært og golfið gekk vel. Alls tóku 76 kylfingar þátt og var gleðin við völd. Að loknu golfi var blásið til grillveislu í skálanum og svo kom hinn íslenski Elvis og tryllti lýðinn.